Að læra að keyra getur kostað á milli 300.000 og 400.000 kr. Það er ekki á hvers mann færi að greiða slíkar upphæðir en það eru til leiðir til að lækka kostnaðinn!
Til dæmis bjóða mörg (en ekki öll) stéttarfélög upp á styrk til almenns ökunáms. Í sumum tilfellum er jafnvel hægt að lækka kostnaðinn um mörg hundruð þúsund krónur með þeirra hjálp.
Hvort og hve mikið er styrkt fer eftir því í hvaða stéttarfélagi þú ert, hve lengi þú hefur unnið, vinnuhlutfalli og hvort þú hafir sótt um aðra styrki.
Tökum nokkur dæmi.
Dæmi 1: Félagi í Eflingu í fullri vinnu
Hámarksstyrkur til náms og námskeiða Eflingu nemur 130.000 kr. á ári. En ef félagi í Eflingu hefur ekki nýtt sér styrkinn í þrjú ár á hann rétt á 390.000 kr. styrk (130.000 x 3) fyrir námskeið og nám. Það má nýta upp í 90% af námskostnaði. Það þýðir að mögulegt er að klára ökunám fyrir u.þ.b. 60.000 kr!
Styrkurinn getur farið upp í bóklega og verklega hluta námsins. Hafðu í huga að styrkurinn fer ekki upp í bókakostnað eða próf.
Dæmi 2: Félagi í VR í fullri vinnu
Félagsmenn VR eiga rétt á allt að 180.000 kr styrk á ári fyrir nám og námskeið. Félagsmaður sem ekki hefur nýtt sér styrk í þrjú árá rétt á 540.000 kr. styrk. Sömu reglur gilda hjá VR og hjá Eflingu að styrkupphæð má ekki vera hærri en 90% af námskeiðskostnaði.
Við sjáum því að þetta er mjög svipað dæmi og hjá Eflingu!
Dæmi 3: Félagi í sumarstarfi
Ef þú ert í skóla á veturna en ert dugleg/ur að vinna yfir sumarmánuðina þá áttu rétt á að sækja um styrk hjá mörgum en ekki öllum stéttarfélögum. Sum stéttarfélög miða við 6 mánuði og önnur jafnvel 12.
Styrkur eftir 3 mánuði vinnu er venjulega lágmarks styrkur og fer það eftir stéttarfélagi hversu hár hann er.
Dæmi 4: Félagi í hlutastarfi
Ef þú ert í hlutastarfi (t.d. með skóla) þá áttu venjulega rétt á að sækja um styrk í samræmi við vinnuhlutfall.
Samantekt
Styrkur frá stéttarfélagi þínu getur mögulega lækkað kostnaðinn af ökunáminu þínu. Hvort og hve mikið er styrkt fer eftir stéttarfélagi, hve lengi þú hefur unnið, hlutfall vinnu í mánuði og hvort þú hafir sótt um aðra styrki. Kíktu á heimasíðu þíns stéttarfélags eða hafðu samband við félagið til að kanna rétt þinn.
Á heimasíðum stéttarfélaga er ekki alltaf sagt berum orðum hvort að veittur sé styrkur til ökunáms. Ökunám flokkast venjulega sem "Nám og námskeið" hjá flestum eða sem "Annað".
Ef þú ert í vafa um rétt þinn þá er best að senda línu á þitt stéttarfélag og spyrja.
Uppfært 31. október 2024